Nýlega var stigið stórt skref í átt að kolefnislausum flota strætisvagna árið 2030 þegar nýr samningur var undirritaður við Hagvagna um akstur ákveðinna akstursleiða strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu.
Þann 29. apríl sl. ákvað stjórn Strætó að ganga til samninga við Hagvagna þar sem fyrirtækið bauð lægst í verkið.

„Þetta eru sannarlega áhugaverðir og spennandi tímar við rafvæðingu strætóflotans og þar eru Hagvagnar stoltir þátttakendur. Við leggjum mikinn metnað í verkefnið og í okkar hópi er tilhlökkun til að takast á við akstur á okkar leiðum“, segir Pálmar Sigurðsson hjá Hagvögnum.

Í nýja útboðinu var gerð krafa um að vagnafloti akstursaðila verði orðinn kolefnislaus í lok árs 2029 en það er í takt við markmið Strætó um kolefnislausan flota árið 2030.
„Við hjá Strætó erum mjög ánægð með þennan samning sem styður okkar markmið um kolefnislausan flota,“ segir Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.